Dagur Óli sem er að verða tíu ára datt heldur betur í lukkupottinn s.l fimmtudag þegar hann var við veiðar á svæði 2 í Hörgá ásamt föður sínum. Við Hlaðnabakka féll þessi boltaurriði fyrir maðknum hans Dags og reyndist þessi flotti fiskur vera 10 pund og 75 sm. Það er ekki oft sem svo stórir urriðar veiðast í Hörgá og samkvæmt rafrænni skráningu í veiðibók SVAK síðustu 16 ár er þetta sá stærsti. Fram að þessu var stærsti skráði urriði úr Hörgá 73 sm og veiddist hann á Þelamerkurbreiðu á svæði 3 2011. Við óskum því unga veiðimanninum Degi Óla innilega til hamingju með fenginn.
Þó Hörgá sé betur þekkt fyrir sjóbleikjuna finnast urriðar bæði staðbundnir og sjógengnir á neðri svæðum árinnar og hafa einnig sótt í sig veðrið á svæðunum í Öxnadalnum.