Síðustu árin hefur Guðmundur gert það að algjörri reglu að hafa vatnslitina með í veiðiferðir og mála eitthvað þegar stund gefst á milli stríða. Smám saman hefur það orðið stór hluti af veiðiferðunum að vatnslita og að hann kemur sáttur heim með eina eða tvær myndir í farteskinu, jafnvel þótt ekkert hafi fiskast. Hins vegar hefur Guðmundur alltaf litið á þetta fyrst og fremst sem algjörar fingraæfingar því hann fæst yfirleitt við allt aðra hluti í sinni myndlist. Samt sem áður hefur þetta undið upp á sig og nú orðið notar hann jafnvel vatnslitamyndirnar sem skissur eða frumdrög að sínum stóru olíumálverkum.
Fyrir hvatningu veiðifélaga um að sýna þessa hlið á náttúruupplifuninni að veiða og vatnslita, varð þessi sýning að veruleika.