26 nóv. 2009
Villtur lax í útrýmingarhættu?
Náttúruverndarráð Noregs telur að villtir laxastofnar í landinu séu í hættu vegna lúsaplágu í eldisstöðvum. Ráðið mælir með stofnun genabanka sem geymi erfðaefni frá 200 villtum laxastofnum.
Ráðið telur að lúsafaraldur í eldislaxi geti borist í villtan lax og ógnað laxastofnum í Noregi.
Janne Sollie, framkvæmdastjóri Náttúruverndarráðs, segir að setja verði strangari reglur og veiðibann í vissum ám til þess að vernda villta laxinn. Án tafar beri að koma upp banka þar sem erfðaefni allt að 200 villtra norskra laxastofna verði geymt í frysti. Talið er að það kosti um 600 milljónir norskra króna að stofna slíkan banka. Viðvaranir eru birtar á sama tíma og laxeldi í Noregi slær öll met í framleiðsluverðmætum fjórða árið í röð. Verð á eldilaxi hefur hækkað um 30 af hundraði á þessu ári. Sjúkdómar af þessu tagi hafa eyðilagt laxeldi í Chile og því hefur framleiðslan í Noregi aukist, sem aftur eykur líkur á sjúkdómum í laxi.
Smitandi laxalús en nú í mörgum eldisstöðvum í Noregi og baráttan við pláguna kostar eldisstöðvarnar 500 milljónir norskar krónur á ári. Norskir líffræðingar telja að hrynji eldislax þá sé hætta á að villti laxinn fylgi þar á eftir. Boðað hefur verið til neyðarfundar um lúsapláguna með laxeldismönnum og vísindamönnum í norska sjávarútvegsráðuneytinu í dag þar sem ræddar verða tillögur til aðgerða.
Frétt frá
ruv.is (hér) og
dirnat.noNánar um laxalús á
angling.is
Til baka