Fréttir

02 nóv. 2009

Það getur verið gaman að missa fisk ...

Ég var spurður að því um daginn, hvað mér væri minnisstæðast úr veiðinni. Ef ég tek mark á fyrstu minningunum sem upp komu, þá voru það þrír fiskar ... sem ég missti alla! Annað sem er skrýtið er að þetta er ein bleikja, einn urriði og einn lax og alls ekki þeir stærstu sem ég hef misst.
Bleikjan tók í Hofsá í Vopnafirði. Hún hefur verið svona um pundið. Um leið og ég fann tökuna, fór umsvifalaust um mig sú tilfinning að þessm fiski næði ég ekki. Ég var með 6-7p taum en það var eins og við manninn mælt, hún tók þvílíkt á að það slitnaði og það var ekki vegna lélegra hnúta eða að ég tæki of fast á henni.

Urriðann setti ég í í Kvíslarvatnsgígnum í Veiðivötnum. Klukkan var alveg undir ellefu að kvöldi og ég að hætta. En það var stilla og fiskur að vaka um allt vatnið. Ég var með þurrflugu undir og hafði verið þarna svona hálftíma án þess að verða ágengt, þegar góður fiskur tók uppi beint framundan mér. Ég lyfti flugunni og kastaði að honum. Hún lenti gersamlega í miðjum hringnum eftir hann og var varla lent þegar hann tók hana með látum. Eftir góðan flugtúr (þar sem ég sá að þetta var um 5p fiskur), tók hann strikið langt niður á undirlínu; út á mitt vatnið. Svo varð allt slakt og ég hélt hann væri farinn. En ekki aldeilis. Þegar ég hafði spólað inn með hraði, í þeirri veiku von að hann væri enn á, var hann það og nú aðeins um tvo metra frá mér. Önnur roka langt niður á undirlínu um leið og hann fann átakið og ... farinn. Ég hafði ekkert tekið á honum, leyft honum að hlaupa og aðeins haldið mjög létt við, en þegar ég skoðaði fluguna, var bugðan á króknum um það bil bein.

Laxinn var í Giljá í Vatnsdal. Það var komið fram á kvöld og fiskur farinn að tínast upp að efsta fossinum. Ég læddist að þeim og renndi maðki til þeirra. Bammm, rosa negla og straumurinn sem fór um mig var sá sami og með bleikjuna; þessi á eftir að fara. Ég sá hann vel, því ég þurfti að lyfta hægri fætinum svo hann færi ekki á milli fóta mér niður ánna. Þetta var 8-9p hængur, nýlega runninn. Hann tætti gersamlega niðureftir og tók tveggja-þriggja metra flug fram af litlum fossi neðan við mig, um leið og hann sleit 20p tauminn eins og tvinna.

Auðvitað komu stóru fiskarnir sem ég hef náð líka upp í hugann, en ekki fyrr en eftir þessa. Af þessu mætti e.t.v. draga þá ályktun að það sé baráttan við fiskinn sem mest hefur gildið, frekar en sigur. Auðvitað yrði ég arfafúll ef allir þeir fiskar sem ég setti í slyppu, en þeir verða að eiga raunhæfan möguleika á því.

Annars situr mjög í mér veiðiferð þar sem ég hvorki heyrði, sá, né varð var við fisk í heilan dag. Það var í Fýlingjavötnum á Laxárdalsheiði. Frúin sem gaf mér leyfi til veiða, sagði þetta vera smá rölt upp brekkuna aftan við bæinn svo ég ákvað að ganga uppeftir í neopren vöðlunum(þetta var fyrir tíma öndunarvaðla). Það var júlí, sólskin og um 20 stiga hiti. Vötnin voru hátt í klukkutíma gangur og alltaf upp í móti. Ekki mjög bratt, en jafn stígandi. Ég hélt alltaf að ég væri alveg að verða kominn, en þegar ég loks náði vötnunum fór ég úr vöðlunum og það rauk úr mér í korter. En hvað um það. Ég var þarna uppfrá í stafalogni og sólskini allan daginn og eins og ég sagði, án þess að verða var við fisk. Þetta var hins vegar ein eftirminnilegasta veiðiferð sem ég hef farið í. Aleinn í náttúrunni frá morgni til kvölds, ekki alveg aleinn því himbrimi hélt mér félagsskap, í þessari líka blíðu. Ógleymanlegur dagur.

Egill Ingibergsson

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.