Fréttir

10 sep. 2009

Sumir segja þetta besta veiðitímann fyrir urriða

VoV hefur heyrt í fleiri en einum veiðimanni nýverið sem gefa lítið fyrir haustveiði á laxi og hafa fráleitt verið að bíða eftir rigningu til að getað endað vertíðina með stæl. Þessir aðilar hafa annað hvort verið að bíða eftir sjóbirtingsánum eða þá að þeir halda til vatna og segja urriðann taka einmitt best á þessum árstíma og þá í rökkurbyrjun og fram í myrkur.
Mynd: Urriðinn tekur oft vel í haustmyrkrinu. Mynd Teitur Örlygsson.

Einn sem við heyrðum í hefur verið að kíkja í Fellsendavatn eftir að líða tók á ágúst. Hann segir makrílinn hafa gefið sér vel, en það sé vegna þess að hann fari í þessar urriðaveiðar til að slaka á og því dragi hann sér stól og hlusti á náttúruna á meðan hann bíður eftir töku. Af og til leiðist honum þó þófið og þá grípur hann annað hvort í flugu eða spón og það gefur líka. „Þetta eru mest 2 til 4 punda fiskar og ég hef fengið upp í 6 punda í sumar. Það eru svo til enn stærri fiskar í vatninu,“ sagði viðmælandinn.

Annar hefur haldið tryggð við Þórisvatn og fór þangað nýverið og veiddi vel, vel á annan tug fiska, mest 2-3 punda. Og enn einn hefur farið nokkrar ferðir í vötnin sunnan Tungnár. Mest hefur hann veitt í Frostastaðavatni og sagði hann bara stutt síðan að hann fór síðast. Veiðin þar dali ekki þótt líði að hausti. Þar er þó mest bleikja, mikið smælki, en talsvert af mjög góðum fiski í bland. Sagði umræddur veiðimaður að hann vissi um 5 og 6 punda bleikjur úr vatninu í sumar, en 4 punda væri hans stærsta að þessu sinni.

Víðar eru gjöful vötn og mörg þeirra eru nær byggð en þau sem nefnd hafa verið. Þannig heyrðum við t.d. af manni sem hefur stundað rökkurveiðar á urriða í Skorradalsvatni og þar skammt undan hafa menn einnig veitt góða fiska í Þórisstaðavatni og Eyrarvatni. Heyrðist m.a. af 10 punda urriða sem tók spón í Skorradalnum.

Tekið af Vötn og Veiði

BHA

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.