Fréttir

08 sep. 2009

Um endurtekna hrygningu laxfiska

Á vef Veiðimálastofnunar er nú að finna umfjölun um endurtekna hrygningu laxa í íslenskum veiðiám. Á nokkrum veiðisvæðum hafa laxar verið áberandi í afla veiðimanna sem eru að koma til hrygningar í annað sinn og eru dæmi um að um 25% aflans séu laxar úr göngu ársins á undan.


Á vef Veiðimálastofnunar, www.veidimal.is segir;

Flestir Atlantshafslaxar koma aðeins einu sinni til hrygningar á sínu lífsskeiði en lítill hluti þeirra nær að hrygna tvisvar eða oftar. Endurtekin hrygning er mikilvægur þáttur í lífssögu laxastofna en hefur verið lítið rannsakaður hér á landi. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að hún m.a. geti dregið úr áhrifum breytileika á afkomu laxa í sjó, geri litlum stofnum kleift að haldast stöðugum og viðhalda erfðafjölbreytileika ásamt því að hámarka lifun og stöðugleika lífstofna. Endurtekin hrygning getur lengt árangursríkt veiðitímabil, aukið verðmæti auðlindarinnar og öryggi hrognaframleiðslu. En hún gerir jafnframt stjórnun auðlindarinnar flóknari þar sem reikna þarf með fleiri árgöngum í veiði.

Í nemandarannsókn sem gerð var við LBHÍ í samstarfi við Veiðimálastofnun voru skoðuð gögn frá Veiðimálastofnun úr átta mismunandi ám á Íslandi. Árnar voru valdar með tilliti til eiginleika ásamt staðsetningu út frá berggrunni og landshluta. Öllum tiltækum gögnum var safnað saman en til að svara tilgátum var notast við gögn frá árunum 1989 til 2006. Í rannsóknaránum var meðalhlutfall endurtekinnar hrygningar á rannsóknartímanum frá 3,0% í Norðurá uppí 9,8% í Stóru-Laxá. Meðalhlutfall hrygna á meðal laxa sem voru að koma til endurtekinnar hrygningar var frá 45,1% í Stóru-Laxá upp í 98,9% í Þjórsá. Það hafði aðeins orðið marktæk breyting með tíma (minnkun) á hlutfalli endurkomulaxa í Laxá í Aðaldal en var mjög nálægt að vera það í Miðfjarðará. Ekki reyndist marktækur munur á hlutfalli endurtekinnar hrygningar út frá berggrunni (móbergssvæði vs. blágrýtissvæði) en hinsvegar kom fram marktækur munur þegar ánum var skipt eftir landshlutum (suður og vestur vs. norður og austur).

Tekið af svfr.is

JÁG

 


Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.