Fréttir

03 sep. 2009

Blæðandi lax er fráleitt alltaf dauðadæmdur

Þessi hrygna fékk að njóta vafans þó að úr henni blæddi talsvert. Það skilaði árangri, því hún komst lifandi í kistu og lifir enn. Báðar myndirnar tók veiðimaðurinn sjálfur, Guðmundur Atli Ásgeirsson.
Það er gömul saga og ný að menn vilji hirða laxa sína og ekki allra að veiða í ám þar sem sleppa skal laxi, eða þar sem óskað er eftir að laxar séu settir gegn greiðslu í klakkistur. Þetta hafa menn m.a. reynt við Eystri Rangá í sumar, en hér birtum við lítið, en blóði drifið dæmi um að blæðandi lax getur vel lifað þó að margir telji þá dauðvona.

Þessar blóðugu myndir tók Guðmundur Atli Ásgeirsson og eru af hrygnu sem hann veiddi sjálfur á svæði 9, en hann vildi láta hrygnuna njóta vafans og setti í vatnsfylltan plastpoka og ók með hana í kistu sem staðsett er á svæði 6. Einar Lúðvíksson, umsjónarmaður Eystri Rangár sagði við VoV: „Það gengur illa að fá Íslendinga til að setja stórar hrygnur í klakkistur og maður heyrir ótrúlegar afsakanir hvers vegna hrygnurnar voru drepnar þrátt fyrir að veiðimenn fái þær að fullu bættar ef þær eru settar í klakkistur. En á þessum myndum sést vel hve mikinn blóðmissi hrygnurnar þola ef meðferðin á þeim er að öðru leyti góð.“Ekki fögur sjón og auðvitað er blóðið blandað vatni á myndinni, en ljóst er þó að laxinum blæddi talsvert, en það kom ekki að sök, hann lifði þetta af.

Veiðimaðurinn og myndasmiðurinn Guðmundur Atli segir: „Þessi hrygna lifði af þrátt fyrir allt þetta blóð sem lak úr henni. Veiddi þessa á svæði 9 og keyrði hana á svæði 6.“

Þessi umræða snertir eitt af hitamálunum í kringum lendingu V-S á Íslandi. Ein kenningin er að blæði úr laxi þá þýði ekkert að sleppa honum (eða setja í klakkistu). Vel má vera að það sé rétt í einhverjum tilvikum, en fráleitt að um einhverja reglu sé að ræða. Ljóst er að menn afskrifa laxinn oft og tíðum allt of fljótt. Í fyrra skrifuðum við m.a. frétt um lax sem veiddur var í Svalbarðsá. Sá lax var tveggja ára hrygna og blæddi talsvert úr henni er henni var landað og hún meðhöndluð. Veiðimaður vildi sleppa henni og leyfa henni að njóta vafans og var það gert. Leiðsögumaðurinn var með merkibyssu og fíraði merki við rót bakuggans. Hrygnan lyppaðist síðan veiklulega og rænulítil út í á og veiðimenn nánast töldu hana af. Leið svo fram á haust og þá veiddist þessi hrygna aftur, mun ofar í ánni og var eldspræk.

Tekið af Vötn og Veiði

BHA

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.