Fréttir

10 ágú. 2009

Fiskidagurinn Mikli í Brunná

Undirritaður varði Fiskideginum Mikla í Brunná í Öxarfirði með fjölskyldu og vinum í blíðu veðri og áin brosti sínu breiðasta. Þetta er í fyrsta skipti sem við komum þangað til veiða og var því eftirvæntingin mikil að skoða þetta veiðisvæði. Ekki olli áin vonbrigðum.


Við komum á svæðið á föstudagskvöldi og tók á móti okkur hann Stefán Leifur bóndi á Leifstöðum, einstakur fróðleiksbrunnur um þetta veiðisvæði, og hleypti hann okkur inn í glæsilegt veiðihúsið sem fylgir ánni og fór svo með mig rúnt um ána til að sýna mér helstu veiðistaði og kennileiti svo að gott yrði að rata um svæðið og veiða það. Þess má geta að hann var á kafi í heyskap en gaf sér þó alltaf tíma til að svara í símann og aðstoða okkur eftir sinni bestu getu.  Við rifum okkur á lappir snemma næsta morgun til að hefja veiðar og byrjuðum við í Litlumýrarhyl, sem er ofarlega í ánni og hefur gefið vel af fiski í sumar, og ekki leið á löngu þar til við vorum búnir að setja í fisk. Dagurinn fór meira og minna í það að skoða ána og átta sig á henni. Okkur varð mjög fljótt ljóst að mesta veiðin var í efri hluta árinnar, í Gilbakkaá eins og hún nefnist þar uppfrá.Sökum veðurs var ekki mikil taka þennan dag en þegar að kvöldaði byrjaði góð taka og vorum við oft að taka 1-2 fiska í hverjum hyl. Fiskurinn þarna er mjög fallegur og í stærri kantinum á því sem maður hefur vanist hérna í norðlensku ánum. Í hyljunum vorum við oft að sjá sannkallaðar kusur inni á milli en þær voru greinilega orðnar vanar ýmsu því ekki vildu þær taka, sama hvernig maður skreið fram á bakkann og sýndi þeim allt það besta sem fluguboxið hafði að bjóða.Þessa tvo daga sem við dvöldum þarna, nutum við lífsins og veiddum vel miðað við það að vera þarna í fyrsta skipti. Brunná og umhverfi hennar heillaði okkur öll og er það alveg öruggt að þangað kemur maður aftur með fjölskylduna því þetta er mjög fjölskylduvæn á og veiðihúsið hentar mjög vel fyrir fjölskyldufólk.HHI

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.