Fréttir

31 júl. 2009

Settu í 80-90 en lönduðu aðeins 18

Holl sem lauk veiðum í Straumfjarðará um miðja vikuna sagi farir sínar ekki sléttar. Nóg var af laxi og stöðugt að koma nýr fiskur inn. Og hann tók mjög vel, menn settu viðstöðulaust í laxa, en nánast misstu þá jafn harðan!
“Þetta var eitthvað það skrýtnasta sem ég man eftir að hafa lent í,” sagði Konráð Jónsson, annar leigutaka árinnar sem var með nokkrum gestum sínum við veiðar. “Það er lítið vatn í ánni, það er ekkert nýtt, en að morgni dagsins sem við byrjuðum veiðar hafði gráða í fjöll og þegar snöggkólnar svona á takan það til að dofna mikið. Þannig var það í fyrstu hjá okkur, en svo fór laxinn að lifna smátt og smátt og koma í fluguna. Það var ekkert bara litlar flugur, heldur hvað sem er, smáflugur, Snældur, Sunrayer í yfirborðinu. Það var sett í 7-10 á hverjum morgni í Sjávarfossi. En það var ótrúlega oft sama sagan, það var tekið, straujað út, jafnvel stokkið og svo voru þeir af. Þeir tóku svo grant að þetta var ekki einleikið,” sagði Konráð.

Straumfjarðará hafði gefið 185 laxa á miðvikudagskvöldið og eru menn vel sáttir við þá tölu miðað við hvernig ástandið hefur verið og hversu góður tími er enn eftir til að bæta töluna.

Mynd: Glímt við lax í Húshyl í Straumfjarðará.

Tekið af Vötn og Veiði

BHA

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.