Fréttir

16 jún. 2009

Regnvatn verði hreinsað við Varmá

Framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis telur æskilegt að hefja hreinsun regnvatnslagna frá eldri hverfum Mosfellsbæjar en þær liggja nú út í Varmá. Fiskur drapst í ánni sl. föstudagskvöld vegna efna sem þannig bárust út í ána.
Starfsmaður áhaldahúss Mosfellsbæjar taldi um fimmtíu dauða silunga í ánni, fyrir neðan ræsið sem liggur frá Reykjahverfinu og nálægum íbúðahverfum. Sérfræðingar tóku sýni af dauðum fiski og vatni úr ánni til rannsóknar.

Þorsteinn Narfason, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis, segir að regnvatnslagnir eldri hverfa liggi beint út í Varmá. Ekki átti sig allir á því hvaða afleiðingar það geti haft ef klór eða öðrum mengandi efnum sé hellt í niðurföll bílskúra eða við íbúðarhús. Það geti drepið lífríki Varmár.

Heilbrigðiseftirlitið hefur verið að rannsaka Varmá og greina ástand hennar. Þorsteinn segir að mengun hafi minnkað frá 2001 og því sé það leiðinlegt þegar svona slys gerist. Raunar hafa áður orðið mengunarslys í ánni. Fyrr á þessu ári fór olía í ána og það hefur tvisvar gerst að heitt vatn hafi lekið í hana vegna bilana.

Tekið af agn.is
Uppruni: mbl.is

BHA

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.