Fréttir

07 jún. 2009

Betri horfur í Eyjafjarðará

Í Bændablaðinu er að finna eftirfarandi grein þar sem fjallað er um betri horfur í Eyjafjarðará:
"Ágúst Ásgrímsson í Kálfagerði og formaður Veiðifélags Eyjafjarðarár segir að ástæða sé til bjartsýni á veiði í ánni á komandi sumri.  Á síðastliðnu ári veiddust um 1000 fiskar í Eyjafjarðará, sem er mun meira en var árið 2007 þegar um 700 fiskar veiddust. Þá er seiðabúskapur á uppleið á svæðum 1 og 2, en hann hrundi gersamlega í kjölfar flóðanna sem urðu í desember 2006, þegar Djúpadalsvirkjun gaf sig.
Ágúst segir að niðurstöður hvað seiðastofna í ánni varðar séu í heildina mjög góðar, sérstaklega á efri svæðum Eyjafjarðarár og sé hún nú að jafna sig eftir áfallið í kjölfar flóðanna miklu. Þá nefnirhann einnig að minkaveiðiátak, sem staðið hefur yfir frá árinu2007, skipti gríðarlega miklu máli fyrir verndun bleikjunnar. „Við fórum í vettvangskönnun í október í fyrra og þá sáum við seiði í öllum pollum og bleikjur á öllum breiðum, klárar til hrygningar,“ segir Ágúst.

Merkingar á bleikjum stóðu yfir síðastliðið sumar og þeim verður haldið áfram á komandi sumri. Slöngumerki er stungið í fiskinn með nálarbyssu þétt við miðjan bakuggann. Þá er bleikjan lengdarmæld í vatnsborðinu og síðan sleppt aftur í ána. Um 200 bleikjur voru merktar í fyrra. „Það kemur svo í ljós í sumar með veiðum á merktri bleikju hversu mikið hún hefur stækkað og einnig hvort hún haldi sig á sömu slóðum og áður. Í sumar munum við líka merkja bleikjur með staðsetningarbúnaði þannig að hægt verði að fylgjast með ferðum þeirra,“ segir Ágúst.

Þeir veiðimenn sem ná merktum fiski í sjó eru beðnir um að lengdarmæla hann og skrá niður númer þannig að rannsóknir skili sem bestum árangri. Þeir sem veiða merktan fisk í ánni geta komið upplýsingum í veiðiskýrslu. Sjóbleikjan hrygnir seint á haustin á malarbotni og í grófum sandi á frekar lygnum breiðum og lænum, en þær eru mikilvægar fyrir seiðabúskapinn. Á aðalfundi Veiðifélags Eyjafjarðarár á dögunum var samþykkt að lækka verð veiðileyfa nú í kreppunni og þá er leyfilegt að hirða einn fisk í soðið á vaktinni á stöngina, en slíkt var bannað í fyrra. Spúnaveiði á svæðum 1, 2 og 3 er einnig leyfð að nýju og með því er að sögn Ágústs komið til móts við yngstu meðlimi fjölskyldunnar. Loks má nú veiða allan daginn á svæði 5 í ágústmánuði."

Tekið af agn.is

BHA

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.