Fréttir

16 jan. 2009

Engin hækkun hjá SVAK

Stjórn Stangaveiðifélags Akureyrar hefur ákveðið verðskrá á veiðileyfum sem félagið hefur til umráða fyrir sumarið 2009. Skemmst er frá því að segja að þar verður ekki um neinar verðhækkanir að ræða og var því meðal annars slegið upp í Flugufréttum nú í morgun. Þar sagði orðrétt:

Veiðileyfi á vegum Stangaveiðifélags Akureyrar fara í sölu um eða eftir helgi og þar munu þá blasa við þau undur og stórmerki að þau hækka ekki um krónu. Þetta þykja auðvitað stórtíðindi á þessum síðustu og verstu tímum.

„Já, ég er enginn hagfræðingur og kann því ekki að útskýra þetta á neinn snúinn eða yfirnáttúrulegan hátt. Málið er bara að við reiknum með mun betri nýtingu núna en í fyrra, bæði í Ólafsfjarðará og Hofsá í Skagafirði - og þá ekki síst í Hofsá sem er flott silungsveiðiá með laxavon,“ segir formaðurinn Erlendur Steinar og bætir við:

„Það hefur orðið dálítil hækkun til okkar vegna vísitölunnar en þetta sleppur fyrir horn ef salan gengur vel. Okkar hlutverk er að bjóða félagsmönnum góð veiðileyfi á sem hagstæðustu kjörum og við tökum það hlutverk alvarlega. Menn finna varla ódýrari daga miðað við gæði en í Hofsá í Skagafirði og við reiknum líka með að margir færi sig til núna þegar ýmis önnur svæði eru að hækka upp úr öllu valdi.“

Forsala til félagsmanna hefst strax eftir helgi hér á vefnum og mun standa í tvær vku. Að því loknu fara óseld leyfi í almenna sölu. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag úthlutunar og breytingar á fyrirkomulagi á veiðisvæðum koma á vefinn eftir helgina.

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.