Fréttir

13 jan. 2009

Allt uppá yfirborðinu.

Pálmi Gunnarsson ríður á vaðið og kemur fyrstur með sögu frá liðnu sumri.   Sögusviðið er austur í Rússlandi en þar var Pálmi við veiðar síðastliðið sumar.
- Við þurfum að vaða ofurlítið, best að við gerum það saman. Petr Belov er lögfræðimenntaður, vinnur hjá tollayfirvöldum í Murmansk. Hann tekur sumarfríin sín í leiðsögumennsku og notar launin til að mennta strákinn sinn. Petr er eiginlega alveg eins og svarthvít rússnesk mynd frá tímum Eisensteins, þungur á brún en hefur mikið fram að færa. Brosin og hláturinn koma ekki á færibandi en þegar þau koma eru þau innileg og ná til augnanna. Undir alvarlegu yfirbragðinu er maður sem nýtur hverrar sekúntu við ána, fínn félagi, fáránlega góður flugukastari og góður leiðbeinandi. Eftir stutta kynningu á fyrsta degi tilkynnti ég Petr að ég ætlaði að eingöngu að veiða með yfirborðsflugum. Þá brosti hann fyrst, skömmu síðar brosti allur leiðsögumannahópurinn. Hann sagði mér að trúlega gæti ég lent í vandræðum að fá laxinn í yfirborðið því það væri farið að kólna, fiskurinn sestur og því miður væri Osenka laxinn ekki farinn að ganga að neinu ráði.

Við vöðum öxl við öxl útí strauminn. Í miðri ánni er stríður strengur, síðan lygnupollur fyrir neðan stóra klöpp.Hér er fullt af laxi segir Petr og hér hafa komið tröll. Siðan fylgir saga af veiðimanni sem lét sig gossa á eftir stórlaxi fyrr um sumarið. Ok, ég er efins þegar ég hnýti Silfurhnátuna undir, gárutúpu sem ég held mikið uppá og nota oft þegar ég veit ekki hvað ég á að nota. Túpan hefur stundum virkað eins og prédikari á velheppnaðri vakningasamkomu. Lyft öllu í efstu hæðir. Fyrsta kastið fer þvert og túban gárar lygnupollinn. Talandi um vakningasamkomu ...síðasti goggurinn sem glefsaði í fluguna, af ég veit ekki hvað mörgum, elti uppað klapparnöfinni sem ég stóð á. Petr brosir útað eyrum og veður í land til að sinna félaga mínum sem er að veiða nokkru neðar. Næsta klukkustund er eitt samfellt ævintýri. Laxar af öllum stærðum kíkja á bombera, urriðaþurrflugur og gárutúpur. Þeir vaða í flugurnar á dauðareki í lygnunni fyrir neðan klöppina, elta þær þess á milli með sporðaköstum niður í strengina þar sem fellur úr veiðistaðnum. Eftirminnilegasta takan var þegar ég í hroka mínum hnýtti litla Black Gnat silungaþurrflugu undir og lét hana detta nokkra sentimetra neðan við klöppina. Ægileg taka splundraði hylnum og lax af stærri gerðinni lagði með það sama af stað niðrúr pollinum, hentist með boðaföllum yfir brot og yfirgaf svæðið með flugu og taum. Þegar ég óð í land eftir atganginn vissi ég að ég myndi aldrei framar líta laxveiðar sömu augum.


Með þessari litlu upprifjun frá Rynda ánni 2008 læt ég fylgja myndband sem reyndar er ættað frá Nýfundnalandi og sýnir hvernig hnýta á Bomber og nokkur geggjuð myndskeið af þurrflugutökum.


 http://www.youtube.com/watch?v=0sGDq9LiF1k


Pálmi Gunnarsson


http://www.youtube.com/watch?v=0sGDq9LiF1k

ÞB

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.