Fréttir

07 jan. 2009

Nokkur orð vegna svarbréfs Egils Ingibergssonar

Svar frá Eiríki St. Eiríkssyni stjórnarmanni í SVFR vegna bréfs Egils Ingibergssonar þann 11/12 2008.
Sælir veiðimenn og gleðilegt nýtt ár.

Þið verðið að virða mér það til vorkunnar að ég hef ekki farið inn á heimasíðu SVAK um nokkurt skeið en datt í hug að gera það vegna kynningarfundarins sem stofnað hefur verið til í Deiglunni á Akureyri nk. föstudagskvöld kl. 20. Vona ég að sem flestir stangaveiðimenn fyrir norðan, ekki bara á Eyjafjarðarsvæðinu, sjái sér fært að mæta.

 Ástæðan fyrir þessu bréfkorni er ágætt svarbréf Egils Ingibergssonar við svari Haraldar Eiríkssonar, ritstjóra SVFR.is, við grein sama Egils á SVAK.is þann 11. desember sl. Ég, líkt og fleiri stjórnarmenn í SVFR, var ekki sáttur við þann skilning sem Egill lagði í útboðsmálin í Mývatnssveit og Laxárdal og aðkomu SVFR að þeim samningi sem varð til eftir að þriðja hæsta tilboðinu í ársvæðin, að undanskildum frávikstilboðum, var tekið. Haraldur skýrði sjónarmið SVFR ágætlega í sínu innleggi og mér sýnist Egill ekki vera ósáttur við þær skýringar þótt hann sé óánægður með að þessi leið skuli hafa verið farin. Um svar hans er allt gott að segja en ég vil þó leyfa mér að benda á nokkur atriði sem orka tvímælis.

1. Egill segir að með því að bjóða í veiðirétt í laxveiðiám hafi SVFR tekið þátt í því að hækka verð á veiðileyfum. Vafalítið er það rétt en hvað átti félagið annað að gera? Fjöldi félagsmanna hefur vaxið úr um 2.000 félagsmönnum í um 3.600 á örfáum árum og til þess að halda nægu framboði þá þarf að útvega ný veiðisvæði. Allt annað er útópía. Í þessu sambandi má nefna að SVFR er sennilega það stangaveiðifélag landsins sem sættir sig við lægsta framlegð af veiðileyfasölu og þeim sem efast um það get ég sýnt verðskrár nokkurra helstu veiðileyfasala landsins allmörg ár aftur í tímann. Staðreyndir, sem þar koma fram, ljúga ekki. Ég er sömuleiðis viss um að það væri ekki allir veiðileyfasalar sáttir við að þau spil væru lögð á borðið. Í þessu sambandi má sömuleiðis vitna í þau orð Egils að ekki verði bæði sleppt og haldið. SVFR hafi kosið að halda en Ármenn hafi sleppt. Ég les þetta þannig að Egill ætlist til þess að SVFR eigi helst að breyta í 3.600 manna hnýtingarklúbb og það með fullri virðingu fyrir því góða starfi sem unnið er innan raða Ármanna. Ábyrgð SVFR felst m.a. því að félagið og stjórn þess hleypst ekki undan ábyrgð. Einhverjir hefðu getað reynt að ljúga sig út úr samkomulagi, sem komst á í júní sl. og ekki síst vegna þess að það dróst fram í nóvember að skrifa undir samninga, en það gerir SVFR ekki.

2. Virkjunaráformin á sínum tíma náðu fram að ganga að því leyti að það veiddist lax alveg uppi undir veiðiheimilinu Hofi fyrst eftir að vatni var hleypt á laxastigann við Laxárvirkjun og sennilega væri urriðastofninn farinn að láta á sjá ef virkjunarmenn hefðu tímt því að láta vatn renna um stigann. Áskell bóndi í Laxárdal segir mér að allir samningar um slíkt hafi verið sviknir og hver segir svo að níska geti stundum ekki leitt gott af sér?

3. Ég skil ekki 30% viðbótina sem Egill nefnir. Samningurinn er einfaldur 14+10 stangir og veiðitíminn er frá 1. júní til 31. ágúst. Því til viðbótar má loka ákveðnum svæðum eftir miðjan ágúst til að friða riðfisk. Þetta var ákvörðun veiðifélagsins. Í raun er verið að stytta veiðitímann því eins og menn vita var komin á aukaopnun, a.m.k. í Mývatnssveit en með ákvörðun veiðifélagsins voru þeir dagar slegnir af.

4. Egill telur sömuleiðis að verð á gistingu og fæði hljóti að hækka. Það er eðlileg ályktun því við þurfum ekki annað en að skoða innkaup heimila okkar til þess að átta okkur á því að það er óðaverðbólga á Íslandi. SVFR lagði hins vegar upp í þessa vegferð með það að markmiði að halda verði á veiðileyfum eins mikið niðri og hægt væri og hið sama má segja um þjónustuna. Síðast þegar ég vissi þá var komið tilboð í reksturinn á báðum veiðisvæðum, samræmt og hækkað þjónustustig og miðað var við að verðið færi ekki yfir 9.900 krónur á dag. Því til viðbótar má nefna að SVFR hefur ráðið staðarhaldara fyrir bæði veiðisvæðin og búið er að skipa fimm manna árnefnd sem vafalítið á eftir að stækka á komandi árum. Um allt þetta og fleira geta menn fræðst á kynningarfundinum í Deiglunni nk. föstudagskvöld. Agli vil ég þakka fyrir svarbréfið. Það var málefnalegt og lýsti áhyggjum af ástandi mála.

Með veiðikveðju Eiríkur St. Eiríksson,
stjórnarmaður í SVFR og umsjónarmaður ársvæða félagsins á Norðurlandi.


ÞB.

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.