Fréttir

04 apr. 2008

Vanmetin veiðiperla steinsnar frá Akureyri.

Hörgárkynningin sem fór fram í Gamla Lundi 03.04.2008

Áhugasamir stangaveiðimenn fylltu Gamla Lund til að fylgjast með
Þóroddi Sveinssyni, tilraunastjóra á Möðruvöllum, afhjúpa leyndardóma
Hörgár. Kynning Þórodds var í stuttu máli sterk upplifun.Eitt af því fyrsta sem Þóroddur sagði í kynningu sinni var að Hörgá væri ekki allra. Það eru orð að sönnu. Hún á það til að vera lituð dögum saman og á köflum breytist hún á hverju ári meira en títt er um sambærilegar ár. Hörgá er auk þess straumþung og svo á bleikjuskömminn það til að taka sér dularfull frí frá veiðimönnum. Sum staðar er veiðisvæðið auk þess óþægilega nálægt þjóðveginum.

En víkjum því næst að sterku hliðum árinnar sem Þóroddur dvaldi við eins og vænta mátti. Lífríki Hörgár er fjölbreytt og áhugavert, lika þegar kemur að fuglalífi og gróðri. Vatnasvæði Hörgár er auk þess margbreytilegt enda ekki bundið við þann hluta sem við sjáum mest af þegar við brunum eftir þjóðvegi nr. eitt á um 100 km hraða. Áin er lygn og fögur inn í dal svo sem við bæi eins Þúfnavelli og Myrká. Svo er Öxnadalsáin kapituli út af fyrir sig sem hefur að geyma spennandi möguleika. Veiðin í Hörgá hefur verið skapleg á sama tíma og hrun hefur orðið í Eyjafjarðará og víðar. Um og yfir 1000 bleikjur á sumri er tala sem oft kemur upp úr dúrnum í vertíðarlok auk slæðings af urriða. Það er ekki slæmt.

Þóroddur fór rækilega yfir helstu veiðistaði og ræddi skilmerkilega ólíkar veiðiaðferðir. Þekktar flugur eins og Nobblerar í ýmsum litum (t.d. bleikur), Mýslan, Beykir, Black Ghost, Teal and Blue og Pheasant Tail voru nefndar og fleiri til. Þóroddur lýsti líka skilmerkilega ýmsum þáttum í hegðunarmynstri sjóbleikjunnar.

Þóroddur uppskar öflugt klapp og ríkulegt þakklæti þeirra rúmlega 30 gesta sem mættu á kynningu hans. Það er vel til fundið að SVAK skuli hafa tekið að sér að sjá um sölu á veiðileyfum í Hörgá sumarið 2008 því þessi kvöldstund hefur án efa kveikt rækilega í mörgum veiðmanninum. Það má því búast má við vaxandi sókn í ána næstu vertíð.

RFS


Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.