Fréttir

14 mar. 2008

Rannsóknir í Sogi

Rannsóknir Veiðimálastofnunar í Sogi

Veiðimálastofnun hefur stundað rannsóknir á fiskstofnum Sogsins árlega frá árinu 1985 og smádýralífi þess frá árinu 1997. Fyrstu árin voru þær unnar fyrir Veiðifélag Árnesinga en frá árinu 1997 hafa þær verið unnar fyrir Landsvirkjun.

Hafa niðurstöður rannsóknanna verið teknar saman og birtar jafnóðum í skýrslum. Megintilgangurinn hefur verið að vakta ástand lífríkis í Sogi og Efra-Sogi með áherslu á fisk- og botndýr. Sogið er lindá og því er eðlislægt rennsli Sogsins tiltölulega jafnt. Í Sogi eru vatnsaflsvirkjanir sem hafa haft ýmis áhrif á lífríki þess eins og óhjákvæmilegt er þegar um slík mannvirki og rekstur þeirra er að ræða. Við virkjanirnar hafa rennslishættir breyst, stífla í Efra-Sogi, við útfall Þingvallavatns, olli því að farvegur þess var þurrkaður upp svo lífsviðurværi bitmýsins þvarr og tók fyrir hrygningu urriða ofan úr Þingvallavatni.
Rannsóknir Veiðimálastofnunar hafa m.a. beinst að því að kanna sveiflur í lífríki árinnar m.t.t. sveiflna í rennsli vegna reksturs virkjana. Landsvirkjun hefur unnið að því að bæta rennslishætti Sogsins og rennsli hefur verið um farveg Efra-Sogs í nokkur ár. Uppi hafa verið hugmyndir um að skapa skilyrði til hrygningar fyrir urriða í útfalli Þingvallavatns sem lögðust af við þurrkun árfarvegsins

Lirfur bitmýs og rykmýs ríkjandi botndýrahópar

Vöktun á botndýrafánu Sogsins og Efra-Sogs hefur staðið yfir frá árinu 1997. Ríkjandi hópar botndýra í Soginu eru lirfur bitmýs og rykmýs, sem er í takt við það sem þekkist í sambærilegum vatnakerfum eins og í Elliðaánum. Í botndýrarannsóknum hefur því megináherslan verið lögð á að fá mat á magn bitmýs- og rykmýslirfa á botni Sogsins. Þéttleiki bitmýslirfa í Soginu hefur mælst allt aðeins milljón einstaklinga á fermetra. Að jafnaði hefur þéttleikinn verið mestur í Efra-Sogi við útfallið úr Þingvallavatni og minnstur við Alviðru.

Sveiflur í seiðabúskap

Vöktun á seiðabúskap í Soginu hefur staðið yfir síðan 1985. Talsverðar sveiflur hafa komið fram yfir tímabilið. Vísitala þéttleika seiða sem eru eldri en nokkra mánaða hefur farið minnkandi frá árinu 1992, en hefur síðan heldur vaxið síðustu árin. Nokkurt bakslag kom þó í þann vöxt á síðastliðnu ári.
Þéttleiki laxaseiða hefur að jafnaði verið lítill í Sogi ofan Álftavatns. Ekki er þekkt hvað veldur því, en bent hefur verið á að rennslissveiflur tengdar virkjunum í Sogi gætu hugsanlega skýrt það. Hvort svo er þarf hinsvegar að kanna gaumgæfilega auk þess að kanna hvort verið gæti um samverkandi þætti að ræða sem skýrt geta þennan litla þéttleika.
Fæðurannsóknir á seiðum laxfiska hafa sýnt að lirfur bitmýs eru þýðingarmikil fæða. Samanburður á hlutfalli fæðudýra í reki og í mögum laxaseiða hefur sýnt að laxaseiði völdu fyrir skordýralirfum, þrátt fyrir að þær séu ekki ríkjandi í rekinu. Stærð fæðudýra virðist skipta miklu máli um val seiðanna á fæðu. Mat á umfangi hrygningar laxa í Sogi ofan Álftavatns hefur nú verið gerð með talningu riðahola ár hvert frá árinu 2004. Hrygningarholur voru mun fleiri árið 2007 en árið 2006, sem gefur vísbendingu um að hrygning hafi aukist milli ára.
Aukinn fjöldi riðahola er í samræmi við aukningu á laxveiði í Sogi sumarið 2007, en þá veiddust 669 laxar sem er mesta laxveiði í Sogi síðan 1988. Samkvæmt seiðarannsóknum voru árgangar 2003 og 2004, sem voru uppistaða af náttúrulegum laxi í Sogi sumarið 2007, mun sterkari en árgangarnir þar á undan. Seiðarannsóknir sýna góða afkomu laxakviðpokaseiða sem sleppt er á ófiskgeng svæði þveráa Sogsins og metið hefur verið að full nýting þeirra geti aukið veiði í Sogi umtalsvert.
Sleppingar kviðpokaseiða geta að hluta skýrt aukna veiði í Sogi. Seiðaárgangur 2005 hefur komið hlutfallslega sterkur fram sem gefur vonir um að laxgengd haldist áfram góð í Sogi næstu ár að því gefnu að skil úr hafi versni ekki. Fróðlegt verður að sjá hverju aukin laxgengd skilar í seiðabúskap árinnar. Veiðimálastofnun telur mikilvægt að vöktun á smádýralífi í Sogi og fiskstofnum þess verði framhaldið, með rannsóknum sem varpað geta ljósi á ástand lífríkis árinnar.

Frétt tekin af Veiðimálastofnun

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.