Fréttir

12 júl. 2019

Sjóbleikjan mætt í Hörgá

Nú fer að ganga í garð sá tími þegar sjóbleikjan gengur æ meira upp í árnar. Margir eru þegar farnir að reyna sig við þennan skemmtilega fisk og hefur orðið ágengt. Höfðum fregnir af veiðimanni sem var við veiðar á svæði 5 A í Hörgá í fyrradag og landaði hann fimm bleikjum og missti annað eins í þá þrjá tíma sem hann á bakkanum. Sú stærsta var um 62 sm. 

Hörgá er ein af stærstu perlum sjóbleikjuveiðinnar og er vinsæl hér norðan heiða. Hún er vatnsmikil og oftast er smá litur á henni. Veiðisvæðin eru sjö og veitt á 2 stangir á hverju svæði. Margir bregða sér í Bægisárhylinn þ.s bleikjan safnast fyrir áður en hún heldur ferð sinni áfram upp Öxnadalinn, aðrir bregða sér á svæði 4 b í Hörgárdalnum þ.s áin er vatnsminni og minna lituð sérstaklega þegar komið er upp fyrir Barkána, eina af þverám Hörgár sem kemur úr Barkárjökli. Svo eru þeir sem velja að arka eyrarnar á svæði 3 og 4 a og uppgötva nýja veiðistaði ár hvert en áin breytir sér talsvert á þessu svæði milli ára. 

Það er leyfilegt að veiða á allt agn í Hörgánni og enginn kvóti er á afla. Hins vegar treystum við veiðimönnum okkar til þess að ganga gætilega um stofninn og sleppa stærstu bleikjunni ef hún er ósærð. Bleikjustofninn hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár. Bleikjuveiði í Hörgá hefur þó verið heldur uppá við s.l tvö ár og vonum við að hann haldi áfram að rétta úr kútnum.

Til baka

Veiðileyfi

Villa kom upp við að sækja veiðileyfi.